AM forlag
Trollid-cover-website.jpg

Tröllið hennar Sigríðar

Trollid-cover-website.jpg
 
 

  • Harðspjalda

  • 14 × 18 sm

  • 36 blaðsíður

  • 2.200 krónur


Langar þig í eintak? Frábært, við erum sannfærð um að þú verður ekki fyrir vonbrigðum. Hér geturðu sent okkur pöntun.

Skoðaðu einnig þriggja bóka knippið okkar með verkum eftir Tomi Ungerer.


Ógleymanleg barnasaga um misskilinn tröllkarl og hugrakka og ráðagóða stúlku

 
 

„Maginn veit hvernig næra á hjartað.“ – Tomi Ungerer

 
 
 

Vikum saman hafa börnin í bæjarfélaginu þurft að fela sig í trjábolum, tunnum og kjöllurum til að komast hjá því að lenda í gogginum á sísvöngum tröllkarli.

Ó, svei! Ó, vei! Ég sársvangur er!
Sjóðið nú krakka í gogginn á mér!
Ó, nei! Ó, vei! Ó, fussumsvei!
Ef ég kjamsa ekki á krökkum
ég klikkast og dey!

Sigríður nefnist ung og ráðagóð stúlka. Hún er upprennandi listakokkur og býr í rjóðri í skóginum ásamt föður sínum. Þau hafa aldrei heyrt á tröllkarlinn minnst. Einn góðan veðurdag hittir hún hann fyrir og líf beggja breytist til frambúðar, þökk sé ráðkænsku og hugrekki Sigríðar.

„Mikilvægt skapgerðareinkenni á öllum börnunum í sögunum mínum er að þau eru alltaf óttalaus,“ sagði Tomi Ungerer einhverju sinni. Það gildir svo sannarlega um Sigríði, sem er huguð og úrræðagóð og leysir vandann með hugviti sínu, gjafmildi og gæsku. Rétt eins og gildir um svo margar sögur Tomi Ungerer kemur einnig í ljós að hinir vondu eru ekki alslæmir inni við beinið. Við þurfum einungis að taka okkur tíma til að setja okkur í fótspor þeirra sem eru öðruvísi og reyna að skilja þá.

„Mér finnst afar mikilvægt að sýna börnum að sama við hvaða bresti og breyskleika við glímum megi alltaf finna leið til að yfirstíga erfiðleikana og gera hið besta úr eigin aðstæðum. Ég vil sýna börnum að við erum öll, á okkar ólíka hátt, einstök.“

Tomi Ungerer (1931–2019) gjörbreytti því hvernig barnabækur 20. aldarinnar voru skrifaðar. Í stað þess að sýna börnum dauðhreinsaðan og falskan heim, þar sem allar sögupersónur eru einfaldar, flatar og hamingjusamar, var hann óhræddur við að draga upp mynd af flóknari veröld og takast á við myrkari hliðar tilverunnar. Honum hefur verið lýst sem „hinum eina sanna arftaka Grimmsbræðra og Hans Christian Andersen“ (The New York Times Book Review). Hann hlaut ótal viðurkenningar og verðlaun fyrir verk sín og er einn af dáðustu barnabókahöfundum tuttugustu aldar.

Sá sem einu sinni opnar bók eftir Tomi Ungerer stofnar til vináttu sem endist út ævina.